Umfangsmikil björgunaræfing haldin á Húsavík - bandaríska flugsveitin tekur þátt

Föstudagur 23. maí 2014

Næstkomandi laugardag er fyrirhuguð sameiginleg æfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar er aðild eiga að Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni, Landhelgisgæslunnar og áhafnar C-130 Herkúles björgunar- og flutningavélarinnar sem er staðsett hér á landi vegna loftrýmisgæslu. Að auki tekur Björgunarsveitin Garðar, og fleiri heimamenn, á Húsavík þátt.

Í æfingunni er sett á svið að í nágrenni Húsavíkur verði öflug jarðskjálftahrina. Björgunaraðilar eru kallaðir út og er þ.a.m. C-130 Herkúles flugvélin fengin til aðstoðar enda líklegt að hún yrði fengin til að  taka þátt í björgunaraðgerðum sem þessum við raunverulegar aðstæður. Lögð verður áhersla á fyrstu viðbrögð og samhæfingu með heimamönnum. Ráðgert er að flugvélin flytji u.þ.b. 30 björgunarsveitamenn frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar ásamt björgunarbúnaði þaðan sem þeir verða fluttir á Húsavík. Súlur, björgunarsveitin á Akureyri sér um flutningana. Landhelgisgæslan kemur að æfingunni sem milliliður við erlenda björgunaraðila og við raunverulegar aðstæður yrðu björgunareiningar hennar einnig sendar á staðinn.  

Samtals verða þátttakendur í æfingunni á níunda tug, þar á meðal eru 50 manns frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, fimm manna áhöfn C-130 Hercules vélarinnar ásamt sex björgunarmönnum frá bandarísku flugsveitinni og í heildina allt að 20 manns frá Landhelgisgæslunni. Einnig taka heimamenn á Húsavík með margvíslegum hætti þátt í björgunaraðgerðum. Áætlað er að bandarísku björgunarmennirnir taki þátt í störfum á vettvangi með íslensku björgunarsveitunum og fái þannig innsýn í og læri um hvernig þær starfa við aðstæður sem þessar.