Veikur sjómaður sóttur um borð í norskan togara

Föstudagur 23. maí 2014

Sjóbjörgunarstjórnstöðin í NUUK á Grænlandi hafði kl. 08:22 samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, vegna veiks sjómanns um borð í norskum togara sem var staðsettur um 250 sml vestur af Snæfellsnesi, í grænlenskri lögsögu.

Skipið hélt áleiðis til Íslands á fullri ferð og fór TF-LIF þyrla Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík kl. 10:30 og tók eldsneyti á Rifi og var síðan haldið til móts við skipið.

Danska herskipið HVIDBJORNEN sem var í höfn í Reykjavík, hélt úr höfn kl 09:45 og sigldi á fullri ferð til móts við skipið.

TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar hélt kl. 12:30 frá Reykjavík, áleiðis til mót við norska togarann, til að fylgja TF-LIF eftir í öryggisskyni sem og til að halda uppi fjarskiptum milli stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og þyrlunnar TF-LIF, þar sem mótsstaður skipsins og þyrlunnar var 230 sml Vestur af Snæfellsnesi. Kl. 12:57 var TF-LIF komin að norska togaranum, og var hífingum við skipið lokið kl 13:05, og héldu þá þyrlan og flugvélin áleiðis til Reykjavíkur á ný.

Kl. 15:42 var TF-LIF lent á Reykjavíkurflugvelli, þar sem sjúkrabíll tók á móti sjúklingnum, og flutti hann á sjúkrahús.

Danska herskipið Hvidbjornen hélt á fullri ferð til móts við skipið á meðan þyrlan var á leiðinni. Þegar sjúklingurinn var kominn um borð í þyrluna, hélt Hvidbjornen kyrru fyrir en skipið var þá statt um 15 sml SV af Malarrifi, tilbúið til að veita aðstoð ef á þyrfti að halda og eins tilbúinn til eldsneytisáfyllingar á þyrlu Landhelgisgæslunnar ef þess gerðist þörf.