Þrjú útköll í dag

Laugardagur 24. maí 2014

Talsvert annríki hefur verið í dag hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Rétt fyrir klukkan þrjú barst aðstoðarbeiðni í gegnum neyðarlínuna (112) vegna smábáts sem var vélarvana út af Garðakirkju, rétt utan við höfnina í Hafnarfirði. Bátur sem hafði komið honum til aðstoðar fékk í skrúfuna og óskuðu þeir eftir aðstoð þar sem bátarnir bárust ört nær landi þrátt fyrir að einu akkeri hafi verið lagt út. Boðaðar voru út Björgunarsveitir í Hafnarfirði og í Garðabæ og hélt björgunarbátur björgunarsveitar Hafnarfjarðar úr höfn kl. 15:12 en þegar að var komið hafði náðst að losa úr skrúfu aðstoðarbátsins sem gat dregið hinn vélarvana bát til hafnar í fylgd björgunarbátsins úr Hafnarfirði.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN var síðan kölluð út á svipuðum tíma til að sækja veikan sjómann um borð í 500 tonna íslenskt fiskveiðiskip sem var staðsett tæpar 50 sml SV af Reykjanestá, úti á Eldeyjarhrygg. Fór þyrlan í loftið kl. 15:24 en hún var þá staðsett í Keflavík eftir að hafa tekið þátt í Landsæfingu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Grindavík. Þyrlan var komin að skipinu kl. 15:49 sjúklingur var kominn um borð kl 16:07. Þyrlan lenti með sjúklinginn við Landspítalann í Fossvogi kl. 16:35.