Annasöm helgi að baki

Mánudagur 26. maí 2014

Mörg krefjandi verkefni komu um helgina inn á borð Landhelgisgæslunnar og var á tímabili tvísýnt um mönnun á bakvakt þyrlu. Öll útköllin leystust þó farsællega, tveir sjómenn fluttir á sjúkrahús, bátar voru dregnir til hafnar og bátur kom í leitirnar sem hafði siglt út fyrir langdrægi ferilvöktunarkerfisins. Einnig tóku einingar Landhelgisgæslunnar þátt í samæfingum með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og bandarísku flugsveitinni sem er stödd hér á landi.

Sem fyrr segir var þyrla tvisvar sinnum kölluð út vegna alvarlegra veikinda á hafi úti, fyrra útkallið var utan langdrægis þyrlu Landhelgisgæslunnar eða 250 sjómílur V-af Snæfellsnesi - inni í grænlenskri lögsögu. Þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar fóru í útkallið. TF-LÍF sótti sjómanninn en TF-SYN var í viðbragðsstöðu ef á frekari aðstoð þyrfti að halda en TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar hélt til mót við togarann til að fylgja TF-LIF eftir í öryggisskyni sem og til að halda uppi fjarskiptum milli stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og þyrlunnar. Einnig fór danska varðskipið HVIDBJORNEN í útkallið þar sem á tímabili leit út fyrir að TF-LÍF þyrfti að taka eldsneyti frá varðskipinu vegna mikils mótvinds á leiðinni til Reykjavíkur. TF-SYN sótti síðan sjómann 50 sjómílur SV af Reykjanestá en þyrlan var þá staðsett á Keflavíkurflugvelli þar sem hún tók þátt æfingu með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Einnig voru björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Hafnarfirði kallaðir út vegna smábáta sem fengu í skrúfuna og bátur NV af Galtarvita óskaði eftir aðstoð vegna rafmagnsleysis og var hann dregin til hafnar af bát sem var að veiðum á svipuðum slóðum.

Þegar áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var að koma út gæslu og eftirlitsflugi á sunnudag var hún sett í viðbragðsstöðu vegna báts sem hvarf úr ferilvöktun þegar hann var staðsettur u.þ.b. 62 sjómílur N- af Horni. Hafði hann siglt á norðurleið út fyrir drægi AIS ferilvöktunarkerfisins en varðstjórar Landhelgisgæslunnar gátu í framhaldinu fylgst með bátnum með staðsetningum frá skipum í næsta nágrenni. Þegar sá möguleiki var ekki lengur fyrir hendi var ákveðið að kalla út þyrlu þar sem ekki náðist í bátinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og vitað var að hann væri utan leyfilegs farsviðs. Vinna þurfti í að kalla saman áhöfn fyrir bakvakt þyrlunnar og voru björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Skagaströnd boðuð út til leitar. Um 40 mínútum síðar barst tilkynning frá íslenskum togara á svæðinu en honum hafði þá tekist að ná sambandi við bátinn í gegnum vinnurásina VHF CH 77. Var allt í lagi um borð og tekin var niður staðsetning bátsins. Nálæg skip voru þá beðin um að upplýsa skipstjóra, fyrir hönd LHG að hann væri kominn langt út fyrir leyfilegt farsvið, þ.e. VHF og AIS langdrægi. Báturinn þyrfti því að sigla nær landi.. Bæði skipin lásu upp skilaboðin en staðfesting um að þau hefðu verið móttekin bárust ekki frá bátnum. Í framhaldinu voru björgunareiningar afturkallaðar þar sem ekki var talin hætta á ferðum. Tveimur klukkustundum síðar fékkst staðfest að skipstjóri hafði móttekið skilaboð Landhelgisgæslunnar og var báturinn á siglingu nær landi. Var hann kominn í ferilvöktun fimm klukkustundum síðar.