Árlegur fundur Landhelgisgæslunnar um leit og björgun sjófarenda og loftfara 

Föstudagur 6. júní 2014

Í gær var haldinn um borð í varðskipinu Þór árlegur fundur Landhelgisgæslunnar (LHG) með viðbragðsaðilum sem hlutverk hafa við leit og björgun sjófarenda og loftfara. Á fundinum var fjallað um helstu björgunaraðgerðir ársins 2013 og hvaða lærdóm megi af þeim draga. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs LHG bauð fundargesti velkomna og fór síðan yfir helstu tölfræði, viðbragðsgetu eininga og tók nokkur dæmi um björgunaraðgerðir ársins.


Landhelgisgæslan skráði samtals voru 486 leitar- og björgunaratvik v/skipa og loftfara á árinu 2013 sem er svipaður fjöldi og síðastliðin ár. Samvinna björgunaraðila hefur gengið vel og athygli vekur að þeim málum fjölgar sem leyst eru á byrjunarstigi. Bátar eru viljugir að koma öðrum á sama hafsvæði til aðstoðar við minni háttar bilanir og gerist þá ekki þörf á að kalla út sjóbjörgunaraðila. Fimm sinnum kom upp eldur um borð í skipum og bátum og þeim fjölgar sem fara út fyrir farsvið fjareftirlitskerfisins sem kallar á að eftirgrennslan hefst. Þá er haft samband við nærstödd skip og báta auk þess sem björgunarskip og þyrlur eru kallaðar út. Flest tilfellin hafa þó leyst farsællega. Mikilvægt er að sjófarendur hafi þetta í huga, gæti að ferilvöktun og hlustun á neyðarrás sjófarenda. 

Ásgrímur tók dæmi um nokkur atvik ársins þar sem áttu sér stað nokkrar giftusamlegar bjarganir. Eftirtektarvert er hversu vel viðbragðsaðilar unnu saman að björgunaraðgerðum. Verklagsreglur og viðbragðsáætlanir eru í stöðugri endurskoðun og mikilvægt er að halda reglulegar æfingar þar sem teknar eru fyrir ólíkar aðstæður með innlendum jafnt sem erlendum aðilum.


Varðskipin voru samtals 271 dag á sjó á árinu á móti 304 dögum 2012. Áhersla er lögð á að hafa ávallt varðskip til taks og eru þau staðsett miðað við álag hvers tíma. Björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru mikilvægar stoðir á grunnsævinu og mikið nýtt við björgunaraðgerðir nær landi. Landhelgisgæslan á í miklu samstarfi við nágrannaríkin og hafa þyrlur dönsku varskipanna verið til aðstoðar þegar þau eru staðsett innan íslenska hafsvæðisins. Aðstaða Landhelgisgæslunnar í Keflavík er mikið notuð við æfingar og samstarfsverkefni innlendra jafnt sem erlendra björgunaraðila. Felast þar mörg tækifæri varðandi björgunarmál á Norðurslóðum.Auðunn F. Kristinsson, verkefnisstjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar fór yfir tölur varðandi útköll loftfara á árinu 2013. Samtals voru loftförin kölluð út 195 sinnum sem er 25% aukning á milli ára og virðist sem að útköllum árið 2014 eigi eftir að fjölga enn frekar. Hefur þeim nú fjölgað um 14% samanborið við árið 2013.  Mikilvægt er að huga vel að að öryggismálum ferðamanna en niðurstöður fyrir árið 2013 sýna að erlendum aðilum sem bjargað er með þyrlum LHG fjölgaði úr 27 árið 2011 í 68 árið 2013.


Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar (SL) tók þá til máls og kynnti helstu niðurstöður björgunaraðgerða SL árið 2013 og leiddi tölfræði þeirra í ljós niðurstöður sem eru sambærilegar LHG. Heildaraðgerðir SL á árinu voru samtals 795 þar af 76 á sjó þar sem samtals 14 flokkuðust undir neyðarútköll. Í 15 tilfellum komu einnig björgunarsveitir SL á landi að aðgerðum.

Samstarf björgunaraðila gekk vel á árinu og er áhersla lögð á að auka samstarfið enn frekar með æfingum, námskeiðum og sameiginlegum verkefnum. Almenn ánægja var með fundinn sem var sóttur af fulltrúum innanríkisráðuneytisins og þeim aðilum sem hlutverk hafa við leit og björgun sjófarenda og loftfara, eru þeir eru auk Landhelgisgæslunnar Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Ríkislögreglustjóri, ISAVIA, Lögreglan á Suðurnesjum, Neyðarlínan, Umhverfisstofnun, Samgöngustofa, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknarnefnd samgönguslysa.  


Í reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara nr. 71/2011 segir í 2. mgr. 9. gr.: 

Landhelgisgæslan skal árlega, eða oftar ef ástæða þykir til, efna til fundar með fulltrúum þeirra aðila sem veita aðstoð, sinna viðbúnaðarþjónustu eða annast leit og björgun svo og fulltrúum annarra aðila sem fara með öryggismál vegna sjófarenda og loftfara. Fjallað skal um helstu björgunaraðgerðir og hvaða lærdóm megi af þeim draga með það að markmiði að auka öryggi sjófarenda og loftfara.

Nokkur dæmi;


13. maí 2013 
Mannbjörg varð  þegar eldur kom upp í  8 metra löngum fiskibát 4 sjómílur SA af Arnarstapa. Einn skipverji var um borð og var honum bjargað um borð í nærliggjandi fiskibát 9 mínútum eftir að tilkynning barst til LHG, var þá báturinn alelda. Þyrla LHG flutti skipverjann til Reykjavíkur til læknisskoðunar .

8. ágúst 
Skútan Falado Von Rodos sendir út „MAYDAY“ kl. 23:15, var staðsett Vestur af Garðaskaga, 12 manns um borð. Óviðráðanlegur leki.Björgunarskip og björgunarbátar af SV-horni landsins kölluð út ásamt þyrlu LHG.Togarar fyrstir á vettvang en ekki aðstæður til að nýta slöngubáta.Ekki aðstæður til hífinga vegna slátturs á mastri.Björgunarbátar fluttu áhöfn yfir í björgunarskip.Skútan sökk í drætti á leið inn fyrir Garðskaga.Kl. 05:56 skipbrotsmenn í höndum Rauða Krossins í Sandgerði.


30. október Eldur kom upp í erlenda flutningaskipinu Fernanda, 11 manns um borð. Beiðni um aðstoð kl. 13:15 frá umboðsmanni skipsins. Haft var samband við skipið og kom þá í ljós að eldur hafði komið upp í vélarrúmi og réðu skipverjar illa við hann. Skipstjóri óskaði eftir tafarlausri aðstoð Áhöfnin komin um borð í TF-GNA kl. 14:35.Viku síðar kom varðskipið Þór með skipið að bryggju á Grundartanga eftir erfiðar aðgerðir.