Samhæfingarstöð virkjuð og þyrla kölluð út þegar flugvél missti afl 

Mánudagur 16. júní 2014

Landhelgisgæslunni barst kl. 20:14 tilkynning frá flugstjórn Isavia um Cessna flugvél, með einn mann um borð, sem missti afl á öðrum hreyfli þegar hún var staðsett NV af Þórisvatni á leið til Egilsstaða. Ákveðið var að virkja Samhæfingarstöð í Skógarhlíð auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.

Fulltrúar lögreglu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Isavia auk Landhelgisgæslunnar komu saman í Samhæfingarstöð og var fylgst með flugi vélarinnar. Einnig bárust reglulega upplýsingar úr frumratsjá frá Landhelgisgæslunni í Keflavík. 

Stjórnstöð komst í samband við flugvélina kl. 21:08 og var ákveðið vegna skýjafars að beina flugvélinni til Keflavíkur. Fylgdi þyrla Landhelgisgæslunnar flugvélinni inn til lendingar og lenti hún heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli kl. 21:35.

Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leitar- og björgunarþjónustu á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu vegna sjófarenda og stjórnar auk þess leit og björgun vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað. Landhelgisgæslan sér um að samhæfa leitar- og björgunarstörf allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafinu og sér auk þess um vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu. Isavia annast viðbúnaðarþjónustu vegna loftfara.