Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur sinnir sjómælingum við Vestfirði

Mánudagur 30. júní 2014

Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur hefur frá byrjun maí mánaðar verið við sjómælingar og ýmis önnur verkefni við Vestfirði og á Breiðafirði. Skipið hefur verið við mælingar fyrir nýtt sjókort sem er í vinnslu og mun það ná frá Bjargtöngum og norður í Ísafjarðardjúp. Reiknað er með að þessar mælingar standi fram í ágúst. Settir voru upp  flóðmælar á Bíldudal og Flateyri og munu upplýsingarnar sem þeir safna verða nýttar við úrvinnslu mælingagagna. Mældar hafa verið þrjár hafnir; Flateyri, Ísafjörður (Sundahöfn) og Akraneshöfn vegna breytinga á þeim hafa orðið, auk þess sem mæld var innsiglingin um Lambhúsasund að athafnasvæði slippsins á Akranesi.

Auk þess voru mælingar gerðar á og við flak breska síðutogarans Ross Cleveland, sem fórst í Ísafjarðardjúpi í aftakaveðri árið 1968 þar sem aðeins einn skipverji komst lífs af.

Baldur hefur auk sjómælinga tekið þátt í og sinnt öðrum verkefnum og má þar nefna þátttöku í leitar- og björgunaræfingu á Breiðafirði með flugdeild Landhelgisgæslunnar og björgunarskipinu Björgu frá Rifi, en þar var Baldur í hlutverki vettvangsstjóra. Áhöfn Baldurs hefur einnig farið til eftirlits í fiskiskip ásamt eftirlitsmanni frá Fiskistofu. Að auki aðstoðaði Baldur bát til hafnar sem fékk veiðarfærin í skrúfuna 15 sml. norður af Garðskaga þann 11. júní sl. Var báturinn dreginn til hafnar í Sandgerði.

Myndir frá áhöfn Baldurs og frá Þorgeiri Baldurssyni.

Baldur_JPA-(2)
Baldur. Mynd Jón Páll Ásgeirsson.


Athugun á gagnasöfnunarbúnaði á Flateyri


Unnið úr sjómælingagögnum


Gagnasöfnunarbúnaður flóðmælis


Á Flateyri


Yfirvélstjóri dyttar að 


Yfirstýrimaður og yfirvélstjóri að loknu eftirliti í fiskiskip. Mynd Þorgeir Baldursson.


Baldur með bát í togi