Þyrla LHG sótti slasaðan sjómann

  • GNA2

Miðvikudagur 9. júlí 2014

Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN var á leið í gæslu og eftirlitsflug rétt fyrir hádegi í dag barst beiðni um aðstoð þyrlu eftir að slys varð um borð í íslensku fiskiskipi sem var staðsett á Hvalbakshalla, 50sml SA af Berufirði.

Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að sækja hinn slasaða og var flogið á Höfn í Hornafirði til eldsneytistöku þar sem lent var kl. 13:06. Farið var að nýju í loftið kl. 13:29 og komið að skipinu kl. 13:29. Sigmaður og læknir sigu niður í skipið og var hinn slasaði undirbúinn fyrir flutning og síðan hífður um borð í þyrluna. Hífingar gengu mjög vel, veður var gott á staðnum, logn og heiðskýrt en þokulæða í grennd. Var síðan flogið að nýju á Höfn þar sem var tekið eldsneyti fyrir flugið til Reykjavíkur. Farið að aftur í loftið kl. 14:59 og lent við Borgarspitalann kl. 16:29.