Leki kom að skipi undan Dritvík

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 1414 aðstoðarbeiðni frá fiskiskipinu Valþóri NS-123 þar sem leki hafði komið að vélarrúmi þess þar sem skipið var statt skammt undan Dritvík á Snæfellsnesi.  Um borð í Valþóri er 3 manna áhöfn en skipið er 60 tonn að stærð. Þyrla Landhelgisgæslunnar, ásamt björgunarskipinu Björg frá Hellisandi, sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi og varðskipinu Þór voru kölluð út og beint á svæðið.  Slökkviliðsmenn í Reykjavík voru einnig settir í viðbragðstöðu með dælur ef á þyrfti að halda.

Fiskibáturinn Ingunn Sveinsdóttir kom að Valþóri kl. 1424 og var til taks ef á þarf að halda. Verið er að flytja lensidælur með þyrlunni, björgunarskipinu og björgunarbátum. Kl. 1513 var þyrlan að koma að bátnum en veðurfarslegar aðstæður eru góðar, renniblíða en hinsvegar lítið skyggni. Áætlað er að björgunarskipið Björg verði við Valþór eftir innan við klukkustund og varðskipið Þór eftir um 3 klukkustundir.

Aðstæður eftir atvikum góðar, og áhöfn skipsins engin hætta búin.