Fjallað um verkefni TF-SIF í frétt Al Jazeera

Miðvikudagur 23. júlí 2014

Nýverið birtist í fjölmiðlinum Al Jazeera frétt sem fjallar um björgun flóttamanna á Miðjarðarhafi sem oft á tíðum þróast yfir að verða umfangsmiklar björgunaraðgerðir. Í aðgerðunum taka þátt fjöldamargar þjóðir sem starfa undir merkjum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins. Þar á meðal er flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF sem hefur komið að verkefnunum sl. fjögur ár. Fréttamenn Al Jazeera fengu leyfi til að fylgja TF-SIF í eftirlitsflug og er í fréttinni vitnað í stýrimann Landhelgisgæslunnar sem fjallar um framlag flugvélarinnar til verkefnisins. 

Þar kemur fram að fjórir eru í áhöfn flugvélarinnar auk þess sem ætíð er um borð starfsmaður sem hefur það hlutverk að vera tengiliður Frontex við ítölsk stjórnvöld. Einnig er Landhelgisgæslan með starfsmann sem er staðsettur í stjórnstöð Frontex í Róm. Hlutverk flugvélarinnar er að tilkynna stjórnstöð um flóttamannabáta sem finnast í eftirlitsbúnaði og sjá til þess að þeim berist aðstoð svo fljótt sem auðið er. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að bjarga mannslífum.

Sjá fréttina hér http://aje.me/1p04Yc5

Mynd Árni Sæberg.