Mælum komið fyrir á hafsbotni umhverfis Reykjanes - Sjófarendur beðnir um að veita staðsetningum athygli

Mánudagur 25. ágúst 2014

Íslenskar orkurannsóknir / Iceland GeoSurvey hafa nú lokið við að setja niður 24 jarðskjálftamælana á hafsbotninn umhverfis Reykjanes. Jarðskjálftamælunum er ætlað að liggja á hafsbotninum og mæla jarðskjálftabylgjur í um eitt ár. Leitað var eftir samstarfi við útgerðir og skipstjóra við ákvörðunartöku um staðasetningar á mælunum og eru sjófarendur beðnir um að veita staðsetningum þeirra athygli í von um að hægt sé að forða þeim frá því að lenda í veiðafærum skipa. Hver mælir vegur um 500 kg og gæti því auðveldlega valdið skaða á veiðafærum.

Framkvæmdin er liður í umfangsmiklu evrópsku rannsóknarverkefni sem nefnist IMAGE (Integrated Methods for Advanced Geothermal Exploration) og er markmið verkefnisins að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka og meta jarðhitakerfi og staðsetja borholur með markvissari hætti. Vonast er til að hægt verði að gefa sem besta mynd af jarðhitakerfum áður en boraðar eru rannsóknarholur. Það gæti þýtt að hægt yrði að draga úr kostnaði við boranir í jarðhitaverkefnum og  einnig að staðsetning borholna verði árangursríkari.

Hér eru mynd af mælunum, kort af staðsetningunum og skrá með hnitunum