Sprungur í sporði Dyngjujökuls sem ekki sáust í fyrri eftirlitsgögnum TF-SIF

Fimmtudagur 27. ágúst 2014

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar lenti í Reykjavík kl. 21:23 eftir átta tíma eftirlitsflug með vísindamenn og fulltrúa almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra yfir Grímsvötn, Bárðarbungu, Dyngjujökul og Öskjuvatn. Gögnum var safnað með ratsjár og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar en nokkuð erfiðar aðstæður voru gagnasöfnunar. Í fluginu sáust m.a. sprungur sem hafa myndast í sporði Dyngjujökuls, norðaustur af Bárðarbungu. 

Að loknu flugi voru upplýsingar teknar til frekari greiningar sem unnið er að hjá sérfræðingum Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar. Enn er ekki búið að staðfesta að gos sé hafið, eða hafi átt sér stað, í norðanverðum Vatnajökli. Áætlað er að næsta flug TF-SIF yfir svæðið verði snemma í fyrramálið.