Áhöfn varðskipsins Ægis losaði hnúfubak úr netatrossu

Fimmtudagur 28. ágúst 2014

Skipstjórinn á Gammi SK 12 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 11:07 í gærmorgun og óskaði eftir aðstoð gæslunnar við að losa hnúfubak sem hafði fest sig í netatrossu sem hann var að draga á Skagafirði. Hann hafði reynt að losa hann sjálfur en hafði við það tapað hakanum sínum þegar hvalurinn sló hann frá sér með sporðinum. Taldi hann sig því ekki eiga annara kosta völ en að óska eftir aðstoð. Áhöfn varðskipsins Ægis var við vinnu um borð við höfnina á Sauðárkróki og hélt léttabátur skipsins áleiðis út fjörðinn og var kominn að hvalnum rúmum hálftíma eftir að óskin barst. 

Brösulega gekk að nálgast skepnuna en hann reyndi að synda sig lausan með tilheyrandi buslugangi og látum. Það var ljóst að blýteinn netatrossunnar var fastur um sporðinn á hvalnum og lítið gekk hjá honum að slíta sig frá. Annar hnúfubakur var þá kominn á staðinn og virtist vera að meta aðstæður. Það fór svo að lokum að varðskipsmenn náðu að skera á teininn svo hnúfubakurinn losnaði og spratt af stað. Hann þakkaði fyrir sig með einu sporðakasti og sást svo ekki meir.

Hér er myndskeið sem sýnir björgunaraðgerðina.


Hnúfubakur metur aðstæður


Vinna að björgunaraðgerðum


Skipstjórinn á Gammi spjallar við stýrimenn Ægis eftir að hnúfubakurinn losnaði.