Dómsmálaráðherra tekur þátt í eftirliti þyrlu LHG yfir gosstöðvarnar 

Laugardagur 13. september 2014

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra fór í morgun með Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar og Haraldi Jóhannessen, ríkislögreglustjóra í eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Bárðarbungu og gosstöðvarnar í Holuhrauni. Markmið flugsins er að kynna fyrir dómsmálaráðherra starf flugdeildar Landhelgisgæslunnar og Almannavarnavarnadeildar RLS og með hvaða hætti Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í þeim viðbúnaði sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur vegna eldgosssins og óróans á svæðinu. Með í fluginu var Björn Oddsson, jarðvísindamaður hjá Almannavörnum en hann ásamt öðrum vísindamönnum hefur fylgst náið með frá því að jarðhræringar hófust í ágúst.

Eins og kunnugt er hefur flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF flogið reglulega yfir gosstöðvarnar með vísindamenn og starfsmenn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Safnað hefur verið gögnum með ratsjár- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar sem síðan hafa verið notuð til að kortleggja breytingar á svæðinu. Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa flutt vísinda- og tæknimenn til uppsetningar og viðhalds á mælitækjum auk þess sem þær hafa verið til aðstoðar lögreglu við löggæslu- og eftirlit á gossvæðinu. 


Skömmu fyrir brottför TF-LÍF.
F.v. Björn Oddsson, almannavörnum, Viðar Magnússon, þyrlulæknir, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dómsmálaráðherra, Walther Ehrat, flugmaður, Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri, Haraldur Jóhannessen, ríkislögreglustjóri og Kristján B. Arnar, flugvirki/spilmaður. Á myndina vantar Teit Gunnarsson, stýrimann/sigmann. 

Walter Ehrat, flugmaður sýnir flugleiðina á korti.Björn Oddsson, jarðfræðingur hjá Almannavörnum útskýrir stöðu mála við Bárðarbungu, Dyngjujökul og Holuhraun.