Lauk námi í stjórnun verkefna á sviði friðargæslu

 Mánudagur 15. september 2014

Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur og fagstjóri köfunar lauk í sumar námi við sænsku alþjóðlegu herakademíuna (SWEDINT-Swedish Armed Forces International Centre) sem gerir hann hæfan til að annast stjórnun verkefna á sviði friðargæslunnar. Jónasi var boðið af  NORDEFCO (Nordisk Defence Cooperation) á námskeiðið sem kallaðist United Nations Civilian Staff Officer Course.

Námið fólst m.a. í að skipuleggja afvopnunaráætlun fyrir óskilgreint svæði, ná samkomulagi milli ólíkra fylkinga og vinna að því að gera svæði hæft til búsetu að nýju. Námskeiðið var afar umfangsmikið og unnu fulltrúar frá Sameinuðu þjóðunum að því að gera umhverfið eins raunverulegt og aðstæður buðu upp á. Nánasti samstarfsmaður Jónasar í lokaverkefninu er yfirmaður fallhlífasveita Omanska hersins  og var að sögn Jónasar ekki síður lærdómsríkt að starfa náið með fólki af öðrum uppruna og taka sameiginlegar ákvarðanir. Var námskeiðið lokapróf í endurmenntun Jónasar.

Jónas hefur, ásamt fleirum hjá séraðgerða- og sprengjueyðingasviði, farið erlendis fyrir Landhelgisgæsluna og starfað fyrir friðargæsluna svo hann þekkir ágætlega til í þeim málaflokki. Auk þess hefur hann bæði hér heima og erlendis starfað með erlendum kollegum, við verkefni sem tengjast köfun og sprengjueyðingum.

Myndin sýnir sprengjusérfræðing á vegum Íslensku friðargæslunnar að störfum í Líbanon.  
Á myndinni sést glitta í 500 kg. flugvélasprengju.