Fragtskip strandar á skeri í Fáskrúðsfirði - útgerð vinnur að björgunaráætlun

  • GNA2

Miðvikudagur 17. september 2014

Landhelgisgæslunni barst um klukkan átta í kvöld beiðni um aðstoð frá flutningaskipinu Green Freezer sem var þá strandað á skeri í Fáskrúðsfirði. Kallaðar voru út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, þ.m.t. björgunarskip og bátar allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson hélt auk þess samstundis á strandstað. 

Varðskipið Þór var beðið um að halda á staðinn og var þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Er hún væntanleg á staðinn um miðnætti með fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar. 

Útgerð fragtskipsins vinnur nú að björgunaráætlun þess. Á meðan bíða björgunaraðilar átekta.

Skipið er stöðugt á strandstað og er ekki talin hætta á ferð. Veður er gott á svæðinu, blankalogn og 10° C hiti

Fragtskipið Green Freezer er skráð á Bahama eyjum og með 17 manna áhöfn.