Ekki talin hætta á bráðamengun - Eigendum Green Freezer veittur áframhaldandi frestur til að ná skipinu af strandstað

Fimmtudagur 18. september 2014 kl. 11:45


Fyrir skömmu síðan lauk samráðsfundi Landhelgisgæslunnar með Umhverfisstofnun og Samgöngustofu vegna strands flutningaskipsins Green Freezer. Engin hætta er talin á bráðamengun á svæðinu og var tekin ákvörðun um að veita eigendum skipsins áframhaldandi frest til kl. 18:00 að ná skipinu af strandstað. 

Varðskipið Þór er á leiðinni á staðinn og er gert ráð fyrir að það verði komið um kvöldmatarleitið. Vettvangsstjórn Landhelgisgæslunnar á staðnum fylgist náið með framvindu mála og er í nánu samstarfi við við Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, útgerð skipsins, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, lögreglu og aðra viðbragðsaðila.

Landhelgisgæslunni barst um klukkan átta í gærkvöldi beiðni um aðstoð frá flutningaskipinu Green Freezer sem var þá strandað á skeri í Fáskrúðsfirði. Kallaðar voru út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, þ.m.t. björgunarskip og bátar allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson hélt auk þess samstundis á strandstað og lóðsbáturinn Vöttur kom á staðinn í morgun.

Varðskipið Þór var beðið um að halda á staðinn og var þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Kom hún á staðinn rétt eftir miðnætti með fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar. Kafarar Landhelgisgæslunnar komu á staðinn í nótt og könnuðu þeir botn skipsins í morgun. Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar gerði sjókort fyrir svæðið sem unnið verður með í framhaldinu.

Útgerð fragtskipsins hóf strax vinnu við björgunaráætlun og bíða á meðan björgunaraðilar átekta.

Skipið er stöðugt á strandstað og er ekki talin hætta á ferð. Veður er gott á svæðinu.

Fragtskipið Green Freezer er skráð á Bahama eyjum og með 17 manna áhöfn.

Mynd frá áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar.