Áætlað að Vöttur dragi Green Freezer af strandstað í kvöld
Fimmtudagur 18. september 2014 kl. 19:45
Til stendur að lóðsbáturinn Vöttur dragi flutningaskipið Green Freezer af strandstað á háflóðinu í kvöld. Eigendur skipsins lögðu síðdegis fram aðgerðaáætlun þar sem þetta kom fram. Landhelgisgæslan gerir ekki athugasemdir við áætlun skipsins en varðskipið Þór mun verða til taks og grípa inn í ef yfirvofandi er hætta á bráðamengun.
Áfram er fylgst náið með með framvindunni og er Landhelgisgæslan í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, lögreglu og aðra viðbragðsaðila.
Landhelgisgæslunni barst um klukkan átta í gærkvöldi beiðni um aðstoð frá flutningaskipinu Green Freezer sem var þá strandað á skeri í Fáskrúðsfirði. Kallaðar voru út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, þ.m.t. björgunarskip og bátar allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson hélt auk þess samstundis á strandstað og lóðsbáturinn Vöttur kom á staðinn í morgun.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn um miðnætti með fulltrúa Landhelgisgæslunnar, sem tók við vettvangsstjórn og fulltrúa Umhverfisstofnunar. Kafarar Landhelgisgæslunnar köfuðu við skipið í morgun og könnuðu skemmdir á botni þess.
Mynd Árni Sæberg út brú v/s Þór.
Green Freezer á strandstað, Mynd Sigurður Ásgrímsson.
TF-LÍF á Fáskrúðsfirði. Mynd Sigurður Ásgrímsson.