Æfing sprengjusérfræðinga stendur yfir

  • NC2012_W1D3_Doug_Elsey_Photo_093

Mánudagur 29. september 2014

Nú stendur yfir á svæði Landhelgisgæslunnar við Keflavík og í Hvalfirði æfingin Northern Challenge sem er alþjóðleg æfing  fyrir sprengjusérfræðinga. Æfingin er í umsjón séraðgerða og sprengjueyðingasviðs Landhelgisgæslunnar sem einnig annast skipulagningu og stjórnun hennar. Norhtern Challenge hefur það að markmiði að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir og er aðildarþjóðum NATO og þjóðum Partnership for peace (PfP) boðið að taka þátt. Í ár er áhersla lögð á þá þróun sem hefur átt sér stað í Afríku. Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur og aðstæður hafðar eins raunverulegar og hægt er á sjó og landi. 

Northern Challenge stendur yfir í tvær vikur og lýkur þann 2. október. Að þessu sinni taka tíu þjóðir þátt í æfingunni sem fer fram í þrettánda sinn.  Þátttakendur koma frá Austurríki, Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Noregi, Ítalíu, Þýskalandi auk séraðgerða- og sprengjueyðingasviðs Landhelgisgæslunnar. Æfingin er orðin mjög eftirsótt enda eru aðstæður hér á landi eins og best verður á kosið. Sprengjusérfræðingarnir hafa möguleika á að miðla þekkingu, æfa bæði á sjó og landi í fjölbreyttu  landslagi auk þess eru fjarlægðir óverulegar miðað við það sem þekkist annarsstaðar.

Starf sprengjusérfræðinga felst að miklu leyti í friðargæslu,  þ.e. að hreinsa  sprengjur af átakasvæðum sem er mikilvægur þáttur í uppbyggingarstarfi því sem fer fram til að skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar. Talið er að 90% þeirra sem látast af völdum sprengja á átakasvæðum séu börn.

NC2012_W1D3_Doug_Elsey_Photo_282

Víða er mikið starf óunnið og er mjög mikilvægt að þjóðir sameinist í hreinsun svæðanna. Slík hreinsun er eðli málsins samkvæmt hættuleg og mikilvægt að rétt sé að verki staðið.

Hér eru myndir sem voru teknar nýverið þegar var haldin kynning á æfingunni en hún fór að hluta til fram um borð í varðskipinu Þór. 


Unnið að sprengjueyðingu


Fjallað um markmið æfingarinnar og þróun frá því að hún var haldin í fyrsta sinn fyrir þrettán árum síðan. 


Sigurður Steinar Ketilsson skipherra tekur á móti gestum


Gestum boðið að skoða ýmsan búnað sem er notaður í æfingunni.