Náðu björgunarbát sem skolaði útbyrðis. 

Boð frá neyðarsendinum bárust í rúma tvo sólarhringa

  • _MG_0566

Mánudagur 10. nóvember 2014

Aðfaranótt sl. föstudags gerðist það óhapp að fiskiskip missti út björgunarbát í vonskuveðri um 12 sjómílur norð-austur af Skagatá. Ekki tókst skipverjum að ná björgunarbátnum aftur um borð enda slæmt veður og ekkert skyggni á svæðinu. Samstundis byrjuðu skeytasendingar að berast frá neyðarsendi björgunarbátsins og hafði Landhelgisgæslan samband við flugstjórn ISAVIA og björgunarstjórnstöðvar í nágrannalöndunum til að láta þær vita af atvikinu þar sem skeytin berast þessum stöðvum við Norður-Atlantshafið einnig og flugvélar í yfirflugi heyra neyðarmerkið.

Fylgst var með staðsetningum neyðarsendisins og virtist björgunarbáturinn stefna inn á Skagafjörð. Var þá haft samband við björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Sauðárkróki og hún beðin um að aðstoða við að ná bátnum og slökkva á neyðarsendinum. Á laugardag fóru björgunarsveitarmenn í verkefnið en urðu frá að hverfa þar sem talsvert hægðist á reki bátsins. Á sunnudag var aftur farið af stað en búist var við að báturinn myndi reka upp rétt norðan Selvíkur vestanvert í Skagafirði. Björgunarsveitarmenn fóru út á gúmmíbát og tókst  fljótlega að ná björgunarbátnum og slökkva á neyðarsendinum. Landhelgisgæslan þakkaði þeim kærlega fyrir aðstoðina og lét flugstjórn og björgunarstjórnstöðvar vita.