Varðskipið Þór æfði viðbrögð við mengun á Norðfirði

Mánudagur 1. desember 2014

Varðskipið Þór var nýverið við æfingar með Hafbjörgu, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Neskaupsstað þar sem þjálfuð voru viðbrögð við mengun á Norðfjarðarflóa.  Notaður var öflugur olíuhreinsunarbúnaðar og olíuvarnargirðing sem er til staðar um borð í varðskipinu og var hann kynntur samstarfsaðilum Landhelgisgæslunnar.

Hreinsuð var upp ímynduð olíumengun í hafinu og aðstoðaði Hafbjörgin við að leggja út 300 metra langa flotgirðingu sem lokar af flæði „olíunnar“. Björgunarskipið tók við línu girðingarinnar og dró hana út frá varðskipinu. Um borð í varðskipinu er mögulegt að hita upp tankana sem geta tekið 675 rúmmetra af olíu. 

Æfingin tókst vel og var hún sérstaklega ætluð til að þjálfa nýliða um borð í Þór. Í æfingunni sýndi sig að björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar virðast henta mjög vel til að draga út flotgirðinguna.

Mynd af varðskipinu Þór kemur frá björgunarsveitinni Gerpi á Norðfirði.Myndir af Hafbjörgu frá varðskipinu Þór.