Varðskipið Týr tók þátt í björgun 300 flóttamanna austur af Sikiley

Laugardagur 6. desember 2014

Varðskipið Týr tók í nótt þátt í björgun 300 flóttamanna af stjórnlausu flutningaskipi um 165 sjómílur austur af Sikiley. Eftirlitsflugvél frá ítölsku strandgæslunni flaug fram á skipið og fengust þá upplýsingar um fjölda flóttamannanna um borð og í hópnum væru bæði konur og börn. Enginn matur né vatn var um borð í skipinu og var talið mikilvægt að flytja fólki sem fyrst frá borði. Varðskipið Týr var staðsett í u.þ.b. 100 sjómílna fjarlægð og var samstundis siglt á vettvang. Einnig var óskað eftir aðstoð eftirlitsskips frá ítölsku strandgæslunni.

Flutningaskip á svæðinu voru fyrst til björgunar og var tekin ákvörðun um að flytja flóttafólkið um borð í eitt flutningaskipanna. Týr sigldi til móts við skipið og þegar þau mættust fóru fjórir skipverjar af Tý yfir í flutningaskipið til að vera til aðstoðar og meta ástandið fólksins en tveir úr hópnum voru slasaðir.

Ítalska varðskip kom síðan í morgun að Tý og flutningaskipinu en til stóð til að hefja flutning á flóttafólkinu frá flutningaskipinu yfir í ítalska varðskipið. Slæmt sjólag var á svæðinu og gekk ekki að flytja fólkið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir léttabáts frá ítalska varðskipinu. Aðstæður voru ekki taldar boðlegar að teknu tilliti til öryggi fólksins. Var því ákveðið að flutningaskipið myndi sigla með flóttafólkið til Catania á Sikiley í fylgd varðskipsins Týs en sex varðskipsmenn voru um borð í flutningaskipinu til að hlúa að flóttafólkinu þar til komið var til hafnar.

Flutningaskipið lagðist að bryggju á Ítalíu seinnipartinn í dag og var þá hafist handa við að flytja fólki frá borði.