Undirbúningsfundur fyrir ráðstefnu um öryggis- og björgunarmál á Norðurslóðum

Fimmtudagur 18. desember 2014

Nýverið stóðu Landhelgisgæsla Íslands og Utanríkisráðuneytið fyrir undirbúningsfundi ráðstefnu Arctic Security Forces Roundtable sem haldinn verður á Íslandi í maí 2015.  Arctic Security Forces Roundtable er samstarfverkefni þjóða Norðurheimskautsráðsins - Arctic Council, sem eru auk Íslands, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Kanada, Noregur og Svíþjóð. Einnig tekur Frakkland, Þýskaland, Holland og Bretland þátt í samstarfinu. Búist er við að á milli 60-70 manns munu taka þátt í ráðstefnunni.

Arctic Security Forces er samstarf sem hófst árið 2011 að frumkvæði Bandaríkjamanna og er markmið þess að halda reglulega samráðsfundi með yfirmönnum herafla þjóðanna og fjalla um björgunar- og öryggismál á Norðurslóðum. Fjallað er um verklag varðandi ýmsar aðstæður sem geta komið upp á svæðinu og á sama tíma eru haldnar skrifsborðsæfingar þar sem þjálfað er viðbragð við neyðartilfellum. Er þar um að ræða áföll og atburði bæði til lands og sjávar en miklar vegalengdir og erfitt veðurfar eru þættir sem hafa mikil áhrif þegar björgunareiningar eru sendar á Norðurslóðir. 


Auðunn F. Kristinsson, verkefnisstjóri á aðgerðasviði LHG kynnti hlutverk
og helstu verkefni Landhelgisgæslunnar.


Skoðuð aðstaða og húsakynni á svæði Landhelgisgæslunnar við Keflavíkurflugvöll