Varðskipið Týr komið til hafnar á Ítalíu með Ezadeen

Föstudagur 2. janúar 2014 kl. 23:30

Varðskipið Týr kom upp úr klukkan tíu í kvöld til hafnar í Corigliano á Suður Ítalíu, með flutningaskipið Ezadeen í togi. Við komuna til hafnar var hafist handa við að flytja fólkið frá borði með aðstoð ítalskra yfirvalda.

Þessi umfangsmikla björgunaraðgerð hófst af hálfu varðskipsins Týs um klukkan fjögur á nýársdag eftir að neyðarkall barst frá skipinu. Var það þá stjórnlaust á fullri ferð eftir að áhöfn skipsins hafði yfirgefið það. Um borð voru rúmlega 400 flóttamenn, þar af 60 börn og þrjár ófrískar konur. Aðstæður voru erfiðar, slæmt veður auk þess sem matvæli og vatn voru á þrotum. 

Varðskipið Týr kom að Ezadeen um klukkan átta að kvöldi nýársdags en hafði verið í sambandi við skipið síðan fyrr um daginn. Haugasjór var og svarta myrkur á vettvangi þegar skipverjar á Tý reyndu fyrst að komast um borð en án árangurs. Þar sem búið var að eyðileggja stjórntækin tókst ekki að stöðva skipið.

Þegar skipið varð vélarvana nokkru síðar tókst varðskipsmönnum loks að komast um borð með léttabát. Þá var hafist handa við að flytja vistir um borð og hlúa að flóttamönnunum.  Áfram var afar slæmt veður á svæðinu og útilokað að ferja fólkið um borð í varðskipið. Ekki tókst að koma vél skipsins í gang að nýju og var þá ákveðið að taka skipið í tog. Björgunaraðilar frá ítölsku strandgæslunni voru fluttir á vettvang með þyrlu og sigu þeir um borð í flutningaskipið með vatn og matvæli.  Skipverjar af Tý fóru þá um borð í varðskipið og siglingin hófst til hafnar.  

Að sögn skipherra gekk siglingin þokkalega, á svæðinu var mjög hvasst, 10 til 15 metrar á sekúndu og afleitt sjólag. Síðdegis lægði örlítið vindinn og gekk þá siglingin betur og komu skipin sem fyrr segir sem til hafnar upp upp úr kl. 22:00 í kvöld.

Myndir frá áhöfn v/s Týr