Gæslu- og eftirlitsflug um Faxaflóa, vestur fyrir Garðskaga að Vestamannaeyjum

Miðvikudagur 28. janúar 2015

TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í gær í gæslu- og eftirlitsflug sem hófst á að flogið var yfir skyndilokunarhólf vegna fiskveiða á Faxaflóa og síðan haldið vestur fyrir Garðskaga að Vestmannaeyjum. Samtals voru 25 skip og bátar auðkennd á svæðinu og voru allir með sín mál í lagi. Á svæðinu var þungur sjór, SSA 10-15 hnútar og þokubakkar.

Komið var að bát sem var að draga línu skammt austan við skyndilokun nr. 14 sem er bann við línuveiðum við Þormóðsker. Kallað var ítrekað á bátinn í gegnum kall- og neyðarrásina, rás 16, til að vekja athygli hans á lokuninni. Ekki náðist samband fyrr en þyrlan hafði hringsólað yfir bátnum dágóða stund. Skipstjóri hafði þá lækkað niður í talstöðinni og var áminntur vegna þessa, þar sem  rás 16 er neyðarbylgja fyrir skip og báta sem öllum sjófarendum ber skylda til að hlusta á.