Þyrla LHG kölluð út í sjúkraflug til Grímseyjar
Sunnudagur 1. febrúar 2014
Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið til Reykjavíkur eftir aðkallandi sjúkraflug frá Grímsey til Akureyrar. Þyrlan var kölluð út að beiðni læknis á Akureyri þar sem ekki var hægt fyrir sjúkraflugvél að lenda í Grímsey.
Þyrlan var kölluð út kl. 16:26 í dag og fór hún í loftið klukkan 17:14. Flogið var beint út í Grímsey þar sem var lent kl. 18:59. Sjúklingur var fluttur um borð í þyrluna sem fór að nýju í loftið tveimur mínútum síðar. Var flogið beint á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og lent þar kl. 19:25. Var þá haldið að nýju til Reykjavíkur.
Þegar þyrlan var á leið til Reykjavíkur barst beiðni frá lögreglunni á Akureyri um aðstoð þyrlunnar við björgun ferðafólks sem var í bílum sem sátu fastir NA- við Laugafell. Slæmt skyggni var á svæðinu og óvíst hvort þyrlunni tækist að komast á vettvang en ákveðið var að láta á það reyna og hélt þyrlan tilbaka til Akureyrar til eldsneytistöku. Klukkan 22:41 var haldið frá Akureyrarflugvelli á vettvang en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst þyrlunni ekki að komast að bílunum vegna afar slæms skyggnis. Að lokum var tekin ákvörðun um að þyrlan færi til Reykjavíkur og reynt yrði að komast að bílunum með öðrum leiðum. Þyrlan lenti í Reykjavík kl. 01.50.