Varðskipið Týr nú í björgunaraðgerðum djúpt norður af Líbíu

Varðskipið Týr er nú í björgunaraðgerðum djúpt norður af Líbíu.  Áhöfn varðskipsins bjargaði fyrir um klukkustund 75 manns af litlum gúmmíbát og gengu björgunaraðgerðir mjög vel. Um borð voru karlmenn og nokkur börn.

Varðskipið Týr hélt svo rakleiðis að öðrum litlum bát sem sendi frá sér neyðarkall og nú er verið að bjarga tæplega 100 flóttamönnum um borð í varðskipið.  
Verður í framhaldinu siglt með flóttafólkið í land á Ítalíu.  Hlúir áhöfnin nú að þeim enda margir skelkaðir og þrekaðir eftir raunir sínar.

Síðustu daga hefur fjölda fólks verið bjargað á þessu svæði og svo virðist sem mikið flæði flóttafólks sé nú frá Líbíu áleiðis til Ítalíu.  
Varðskipið Týr verður áfram við björgunarstörf á þessu svæði á næstunni.