Áhöfnin á Tý vinnur frækilegt björgunarafrek - hundruðum flóttamanna bjargað af litlum gúmmíbátum
Áhöfnin á varðskipinu Tý vann í gærkvöldi og nótt frækilegt björgunarafrek djúpt norður af Líbíu, er áhöfnin bjargaði alls 184 flóttamönnum um borð í varðskipið af tveimur litlum gúmmíbátum. Auk þess voru 100 flóttamenn sem bjargað hafði verið af ítölsku varðskipi ferjaðir þaðan yfir í varðskipið Týr til aðhlynningar. Alls eru því 284 flóttamenn um borð í varðskipinu Tý sem nú siglir áleiðis til Ítalíu og áætlar komu til hafnar í Augusta á Sikiley um miðjan dag í dag.
Áhöfnin á Tý bjargaði flóttafólkinu af fyrri gúmmíbátnum rétt um kvöldmatarleytið í gær en um borð í bátnum voru 71 karl, tvær konur og eitt barn. Meðan á björgunaraðgerðum stóð barst neyðarkall frá öðrum litlum gúmmíbát. Týr kom á vettvang skömmu seinna og bjargaði þar af litlum gúmmíbát alls 92 körlum og 18 konum, þar af einni barnshafandi.
Sem fyrr segir eru nú alls 284 flóttamenn um borð í Tý og þar af eru nokkrar barnshafandi konur. Allir eru í góðu skjóli innandyra og njóta aðhlynningar varðskipsáhafnarinnar en fólkið var þrekað og skelkað eftir að hafa siglt á þessu erfiða hafsvæði á litlum opnum bátum.
Síðustu daga hefur fjölda fólks verið bjargað á þessu svæði og svo virðist sem mikið flæði flóttafólks sé nú frá Líbíu áleiðis til Ítalíu. Verður varðskipið Týr áfram við björgunarstörf á þessu svæði á næstunni enda er þörfin fyrir jafn öflugt skip og vel þjálfaða áhöfn mikil
Meðfylgjandi eru myndir frá frækilegum björgunarafrekum varðskipsáhafnarinnar í gær.