Þétt setið í flugskýli Landhelgisgæslunnar

Mikið annríki er þessa dagana hjá flugtæknideild Landhelgisgæslunnar.  Aldrei hafa fleiri vélar verið í skýlinu en auk flugflota Landhelgisgæslunnar er þar einnig vél Isavia af gerðinni Beech B-200 í viðhaldi en skoðun á henni er að ljúka.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF er nú í reglubundinni skoðun eftir langa útiveru í landamæraeftirliti fyrir Frontex en vélin kom nýverið til landsins eftir ríflega tveggja mánaða úthald.  Að auki er ein af þremur þyrlum stofnunarinnar TF-SYN í stórri skoðun sem komin er vel af stað.  Hinar tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-LIF og TF-GNA hafa nú farið í gegnum stórar reglubundnar skoðanir og eru tilbúnar til verkefna. 

Mikil ábyrgð fylgir því að viðhalda og reka loftför og hefur flugtæknideild Landhelgisgæslunnar það hlutverk að fylgja eftir ítarlegum viðhaldsáætlunum sem sérsniðnar eru að hverri vél fyrir sig og tryggja það að viðhald sé framkvæmt samkvæmt lögum og reglum og flugöryggi sé tryggt eins og best verður á kosið.  

Meðfylgjandi mynd sýnir hversu vel hver einasti fermetri var nýttur í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag.