Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir erlenda ferðamenn sem lent höfðu í aftakaveðri norðan Mýrdalsjökuls
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF er nú á leið til baka eftir að hafa sótt tvo erlenda ferðamenn norðan við Mýrdalsjökul sem höfðu náð að hringja og gera vart við sig nú fyrr í kvöld.
Að beiðni aðgerðastjórnar var þyrlan kölluð til leitar en mennirnir sem náðu að hringja og láta vita af sér höfðu týnt öllum sínum búnaði í aftakaveðri. Var þyrlan í æfingaflugi og því tilbúin til brottfarar. Skömmu áður en þyrlan kom á staðinn höfðu björgunarsveitir fundið mennina en voru þeir fluttir með þyrlunni til baka enda orðnir kaldir og hraktir.
Gera má ráð fyrir að þyrlan lendi við flugskýli Landhelgisgæslunnar um kl. 23:30 í kvöld.