Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni
Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú nýlent við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli eftir að hafa flogið yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni með sérfræðinga á vegum almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra, Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Haldið var af stað með þyrlunni um klukkan 18:00 í kvöld. Var flogið yfir gosstöðvarnar til skoðunar og lent á svæðinu til að vísindamenn gætu kannað aðstæður. Engin gosvirkni var sýnileg. Að skoðun lokinni var flogið til Akureyrar þar sem þyrlan tók eldsneyti og áfram til Reykjavíkur þar sem lent var nú fyrir rétt um hálftíma.