Þyrlan TF-LIF og Friðarsúlan í dans.

Þessa einstöku mynd tók einn af starfsmönnum Landhelgisgæslunnar þegar þyrla, bátar og kafarar Landhelgisgæslunnar voru við æfingu við ytri höfnina í Reykjavík nú fyrir skemmstu. Það er engu líkara en sigmaður í áhöfn þyrlunnar TF-LIF renni sér fimlega niður Friðarsúluna í Viðey og hefur myndin því fengið hið skemmtilega heiti „Friðarsúludans“. Þá gerir það sjónarspilið enn táknrænna að myndin er tekin á afmælisdegi Yoko Ono.

Mikilvægur þáttur í starfsemi Landhelgisgæslunnar eru æfingar þar sem einingar Landhelgisgæslunnar æfa saman viðbrögð og samhæfðar aðgerðir vegna allra mögulegra þátta sem upp geta komið við leit og björgun.  Á æfingunni sem þarna fór fram komu að starfsmenn og tæki úr flestum deildum Landhelgisgæslunnar. Má þar nefna sjómælingaskipið Baldur, öryggisbáta, öryggiskafara, áhöfn þyrlunnar, starfsmenn við stýringu og aðgerðastjórn og svo starfsmenn sem settu sig í hlutverk þeirra slösuðu og týndu.  ​Æfingar sem þessar eru reglubundinn liður í starfseminni og forsenda þess að starfsmenn Landhelgisgæslunnar séu viðbúnir og vel þjálfaðir á ögurstundu.