TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar við leit við Vatnajökul í nótt

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 22:35 í gærkvöldi beiðni frá lögreglunni á Höfn um leit með þyrlu í fjallendi. Vegfarendur á Höfn og björgunarsveitarmenn á leið úr aðgerð töldu sig sjá neyðarsól á lofti ofan við Skálafellsjökul eða Heinabergsjökul sem eru skriðjöklar úr Vatnajökli.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út til leitar og skip á svæðinu beðin um að líta til fjalla. Hvorki var vitað um mannaferðir á lofti né landi á þessu svæði.

Þyrlunni TF-LIF var flogið yfir leitarsvæðið frá kl. 00:40 á meðan björgunarsveitir leituðu á landi og skip utan við Hornafjörð litu til fjalla. Leitarsvæðið er torfært fjallendi og töluvert sprunginn jökull og gerði þyrlan ítarlega leit á svæðinu. Ekki sáust frekari neyðarmerki eða ummerki um mannaferðir. Leit var hætt kl 02:00 og er ekki vitað um hvaða ljós var að ræða. TF-LIF var lent í Reykjavík kl. 03:47.