Þyrla kölluð út vegna slasaðs sjómanns um borð í togara

Þyrla Landhelgisgæslunnar var í gærkvöldi kölluð út til að sækja slasaðan sjómann um borð í togara um 30 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Klukkan 21:10 hafði skipstjóri skipsins samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð en áhafnarmeðlimur hafði slasast illa á fæti og var það mat læknis að nauðsynlegt væri að koma manninum fljótt á spítala.

Þyrlan var komin yfir skipið um klukkan tíu en eftir að hafa verið yfir skipinu í um 45 mínútur var ákveðið að skipið myndi sigla með manninn í land þar sem ekki var talið óhætt að hífa manninn um borð í þyrluna vegna veðurs. Aðstæður voru nokkuð erfiðar, éljaveður og mikill sjór. Hélt því skipið áleiðis til hafnar og kom í höfn í Helguvík rétt fyrir fjögur í nótt.