Beiðni um aðstoð vegna mannlauss báts í Hvammsvík

  • _MG_0659

Rétt um tuttugu mínútur fyrir níu í gærkvöldi, föstudag hafði eigandinn að Kára/1761 samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en báturinn var mannlaus við legufæri í Hvammsvík.  Hafði báturinn dregið legufærin verulega en var þó ekki enn kominn upp í fjöru. Taldi eigandinn nauðsynlegt að huga frekar að bátnum en vegna veðurs var ómögulegt að komast um borð í bátinn.  Var því afráðið að fá aðstoð björgunarsveita og voru þær komnar á staðinn um kl. 22:30.  Eftir skoðun þeirra var ljóst að vegna veðurofsans væri ekkert hægt að gera og mjög óráðlegt að reyna að komast um borð í bátinn og færa hann að landi.  Var báturinn því fastur þar sem hann var. 

Um klukkan 11:40 í morgun hafði svo eigandinn að Kára samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og sagði bátinn kominn upp í fjöru.  Liðlega hálfþrjú nú í dag var svo báturinn farinn að leka olíu og hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þá samstundis samband við Umhverfisstofnun og tilkynnti um yfirvofandi mengun.