Áhöfnin á TF-LIF sótti í nótt slasaðan sjómann af grænlenskum togara
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 04:47 í nótt til Patreksfjarðar til að sækja slasaðan sjómann af grænlenska togaranum Qaqqatsiaq. Var togarinn þá kominn inn á Patreksfjörð. Óskað var eftir aðstoð þyrlu vegna mannsins í gærmorgun en ekki reyndist mögulegt að sækja hann þá vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Var þá ákveðið að togarinn tæki stefnu á Patreksfjörð og beðið yrði færis til að sækja manninn þegar veðri slotaði.
Áhöfnin á þyrlunni hafði lokið við að hífa sjúklinginn um borð í þyrluna um kl. hálfsjö í morgun og var þá flogið til Reykjavíkur. Lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús rétt fyrir kl. hálfátta.