Varðskipið Þór verið við eftirlit á suðvestur- og vesturmiðum

Varðskipið Þór hefur undanfarnar vikur verið við eftirlit, meðal annars á suðvestur- og vesturmiðum. Tíðarfar hefur að undanförnu verið með eindæmum slæmt og hefur það haft áhrif á sjósókn. Aflabrögð hafa þó verið góð hjá vertíðarbátum og tala varðskipsmenn um að stór og fallegur fiskur sjáist við skoðanir þeirra.

Eitt af mikilvægum hlutverkum varðskipa er að fara um borð í fiskiskip og kanna öryggisbúnað, lögskráningu áhafnar, atvinnuréttindi yfirmanna, veiðarfæri og afla. Er þetta nauðsynlegur þáttur í eftirliti og löggæslu á sjó. Í hverjum mánuði er farið til eftirlits í 15-20 skip og hljóta varðskipsáhafnir þjálfun í eftirliti með afla, veiðarfærum og öryggisbúnaði. Almennt er ástandið um borð mjög gott en einstaka skip þarf að leiða inn á rétta braut.

Á meðfylgjandi mynd má sjá varðskipsmenn um borð í fiskiskipi á Breiðafirði við hefðbundið eftirlit. Reyndist allt vera í góðu lagi um borð.