Flug rússneskra herflugvéla við austurströnd Íslands

Tvær langdrægar rússneskar herflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 F og J, en þessi tegund er oftast nefnd „Björninn“, flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins í nágrenni Íslands rétt fyrir miðnætti í gær. Vélarnar eru meðal annars hannaðar til kafbátaeftirlits, kafbátaleitar og fjarskipta.  

Fylgst var með vélunum í loftvarnaeftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið norðaustur af Íslandi og voru á flugi í um eina klst. 80 sjómílur suðaustur af Stokksnesi. Þær voru auðkenndar á leiðinni til Íslands af norskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru í nágrenni við Ísland og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.  

Landhelgisgæslan sinnir daglegu loftrýmiseftirliti í samvinnu við Atlantshafsbandalagið. Eftirlit með flugi rússnesku herflugvélanna er hluti af framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu bandalagsins við Ísland. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar starfa í stjórnstöðinni í Keflavík og sinna eftirlitinu fyrir hönd Íslands.

Meðfylgjandi er mynd af sambærilegri vél.