Landhelgisgæslan þakklát fyrir það mikla traust sem hún nýtur meðal landsmanna

Landhelgisgæslan nýtur mest trausts almennings samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup sem birtust í gær en samkvæmt þeim ber 81% þjóðarinnar mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Könnun Gallup var gerð seinni hluta febrúar og í byrjun mars og var svarhlutfall 58% af 2.900 manna úrtaki. Er þetta fimmta árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana eða allt frá því að Landhelgisgæslan var tekin fyrst inn í mælingar Gallup.

Landhelgisgæslan er afar stolt og þakklát yfir þessum niðurstöðum sem staðfesta að meginþorri þjóðarinnar er sáttur við störf hennar. Að baki þessu mikla trausti er samheldinn og hæfur hópur starfsmanna sem gerir sér grein fyrir að trausti fylgir einnig mikil ábyrgð sem ávallt þarf að huga að með hagsmuni landsmanna að leiðarljósi. Markmið Landhelgisgæslunnar eru nú sem ávallt að tryggja sem best öryggi sjófarenda, fólksins í landinu og verndun auðlinda með sem bestum og hagkvæmustum hætti. 

Í þakkarbréfi Georgs Kristins Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar til starfsmanna Landhelgisgæslunnar nú í dag sagði hann meðal annars:

„Þessar niðurstöður endurspegla að þjóðin ber góðan hug til Landhelgisgæslunnar og það eru verðmæti sem við þurfum að gæta vel að. Í störfum okkar höfum við leitast við að sinna þeim verkefnum sem okkur er trúað fyrir af alúð, fagmennsku og metnaði, þrátt fyrir þrengingar á ýmsum sviðum. Það hefur okkur tekist þó oft hafi reynt verulega á. Það er greinilegt að landsmenn reiða sig á okkur og undir því þurfum við og ætlum okkur að standa. 

Þessi árangur er ykkur kæru samstarfsmenn að þakka sem og öllum þeim öflugu og traustu starfsmönnum sem Landhelgisgæslan hefur haft á að skipa í gegnum áratugina.  Þið getið verið afar stolt af þessum árangri en um leið skulum við öll hafa í huga að vegsemd sem þessari fylgir mikil ábyrgð.  Við þurfum sem fyrr að gæta fyllstu varúðar og hófsemdar og láta þetta verða okkur enn frekari hvatning til fagmennsku og vandvirkni.“