Vaskir Landhelgisgæslumenn kynna starfsemi hennar á Skrúfudegi Tækniskólans

Það voru ungir og vaskir starfsmenn frá Landhelgisgæslunni sem kynntu starfsemi hennar á Skrúfudegi Tækniskólans nú á dögunum.  Þetta voru þeir Magnús Pálmar Jónsson stýrimaður á varðskipunum, Anton Örn Rúnarsson skipstjórnarnemi og varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð og Jón Arinbjörn Einarsson sem starfar sem gagnafulltrúi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 

Þeir félagar kynntu starfsemi Landhelgisgæslunnar fyrir áhugasömum nemendum, kennurum og öðrum gestum og gangandi.  Sýndu þeir myndir og myndbandsupptökur frá starfseminni, glöddu viðstadda með litlum gjöfum og margvíslegu upplýsingaefni tengdu starfsemi Landhelgisgæslunnar og svöruðu spurningum.  Voru gestir meðal annars áhugasamir um störf Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi en mesta athygli vakti þó að þeir kappar eru kornungir en hafa nú þegar starfað víða innan Landhelgisgæslunnar og náð umtalsverðum starfsframa.  Til að mynda er Magnús Pálmar aðeins 22 ára en hefur siglt sem stýrimaður í tvö ár, bæði hér heima og í verkefnum Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi.  Hann var reyndar yngsti stýrimaðurinn í sögu Landhelgisgæslunnar er hann fór sína fyrstu ferð aðeins 19 ára gamall.  Anton Örn er aðeins 21 árs en hefur unnið í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar með námi og Jón Arinbjörn sem er 23 ára hefur bæði starfað á varðskipum Landhelgisgæslunnar og í stjórnstöðinni á Keflavíkurflugvelli. 

Fannst nemendum skólans sem og öðrum gestum gaman að sjá unga og efnilega menn í jafn ábyrgðarmiklum störfum innan Landhelgisgæslunnar.  Kveikti það áhuga margra nemenda á störfum innan Landhelgisgæslunnar og vakti um leið jákvæða athygli á skipstjórnarnáminu. 

Hér á myndinni eru þeir félagar frá hægri talið: Magnús Pálmar Jónsson, Anton Örn Rúnarsson og Jón Arinbjörn Einarsson.​