Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir veikan skipverja um borð í íslensku skipi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 04:21 í nótt beiðni frá íslensku skipi um aðstoð þyrlu en um borð var veikur skipverji með verk fyrir brjósti. Skipið var þá statt á Breiðafirði.

Var þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF kölluð út og þyrlulæknir í áhöfn leiðbeindi skipverjum um umönnun sjúklings þar til þyrlan var komin á vettvang. Er þyrlan var á leiðinni hafði skipið samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og sagði að því sunnar sem þeir sigldu bættist í vind. Eftir samráð við áhöfn þyrlunnar var ákveðið að skipið tæki stefnu inn á Ólafsvík.  Ástand skipverjans var orðið nokkuð stöðugt og var hann hífður um borð í þyrluna rúmlega hálfsjö í morgun. Flogið var rakleiðis til Reykjavíkur og lenti þyrlan kl.07:22 við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.