Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar gera óvirkt tundurdufl í Vestmannaeyjum og sprengjukúlu nálægt Hafravatni

Það hefur verið mikið að gera hjá sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar að undanförnu.

Síðasta vetrardag fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá dragnótarbátnum MAGGÝ VE-108 um að skipið hefði fengið torkennilegan hlut í nótina austur af Vestmannaeyjum.

Haft var samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar sem settu sig í samband við skipverja. Eftir að hafa fengið nánari lýsingu á hlutnum ásamt myndum, var niðurstaðan sú að um hleðslu og forhleðslu úr tundurdufli væri að ræða.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru þá þegar til Vestmannaeyja með þyrlu Landhelgisgæslunnar til móts við skipið, til að vera tilbúnir að taka á móti því þegar komið væri að bryggju í Vestmannaeyjum. Með aðstoð lögreglu var duflið tekið frá borði og farið með það á afvikinn og öruggan stað og því eytt.

Í gær, á sumardaginn fyrsta fékk svo stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu í gegnum lögreglu að sprengja hefði fundist nálægt Hafravatni. Voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar umsvifalaust sendir á vettvang. Við nánari skoðun þeirra var staðfest að um sprengjukúlu væri að ræða eða svokallað morter. Erfitt getur verið að greina milli þess hvort um sé að ræða æfingakúlu eða kúlu með hásprengjuefni. Svæðið þar sem sprengjan fannst er gamalt skotæfingasvæði sem Bretar og Bandaríkjamenn notuðu eftir stríð. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tryggðu svæðið og sprengdu kúluna á staðnum.


Meðfylgjandi má sjá myndir frá vettvangi í Vestmannaeyjum og við Hafravatn.


 
 Dragnótarbáturinn MAGGÝ VE-108 kemur inn til hafnar í Vestmannaeyjum.

 
Hér má sjá stærðarhlutföll tundurduflsins sem MAGGÝ VE-108 fékk í nótina.


 
Tundurduflinu komið fyrir til eyðingar.

 
Sprengjukúlan sem fannst nálægt Hafravatni á sumardaginn fyrsta.

 
Hér má sjá fjarlægðina frá staðnum þar sem sprengjukúlan fannst að veginum við Hafravatn.



 
Sprengjukúlan tilbúin til eyðingar.