Leikskólinn Sóli heimsækir varðskipið Þór í Vestmannaeyjum

Nú á dögunum fékk varðskipið Þór skemmtilega heimsókn er varðskipið var í Vestmannaeyjum. Leikskólinn Sóli kíkti um borð með fimmtán eldhressa og fróðleiksfúsa krakka auk nokkurra kennara en hluti þeirra voru gestakennarar frá Suðurnesjum.

Gestirnir skoðuðu brú skipsins og sum börnin prófuðu að setjast í skipherrastólinn og tóku sig aldeilis vel út. Ef til vill eru verðandi varðskipskappar í hópnum.

Farið var í skoðunarferð um varðskipið og í borðsalnum tók brytinn sem sjálfur er Eyjapeyi, á móti hópnum með ávöxtum og djús. Að lokum voru allir leystir út með endurskinsmerki með mynd af varðskipinu Þór.

Landhelgisgæslan þakkar þessum flottu krökkum fyrir komuna.

 
 Þessi ungi maður lét fara vel um sig í skipherrastólnum