Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF heldur til eftirlits- og björgunarstarfa á Miðjarðarhafi

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF hélt nú rétt fyrir hádegi í dag áleiðis til Sikileyjar til starfa fyrir Frontex, Landamærastofnun Evrópusambandsins. Mun flugvélin sinna landamæragæslu á vegum Frontex fram til loka júlí en snýr þá aftur á heimaslóðir.

TF-SIF kom til landsins um miðjan febrúar en þá hafði hún verið við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi frá desember sl.

Flugvélin hefur reynst afar vel í verkefnum þessum og mikil ánægja hefur verið með störf áhafnarinnar. Meðal annars hafa erlendir samstarfsaðilar leitað til Landhelgisgæslunnar til skrafs og ráðagerða um skipulag og framkvæmd við landamæraeftirlit og björgun á Miðjarðarhafi. Þá hafa flugvél og varðskip Landhelgisgæslunnar starfað saman við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafinu en sú staða kemur einmitt upp nú þar sem varðskipið Týr er á Miðjarðarhafi og verður fram til loka maí. Samspil þessara tveggja öflugu eininga hefur reynst vel og skilað góðum árangri við eftirlit, leit og björgunarstörf. Eins og ítrekað hefur komið fram í heimsfréttum er mikil umferð flóttamanna nú um Miðjarðarhafið og þörfin fyrir öflug tæki og vel þjálfaðar áhafnir gríðarleg.

Fimm manna áhöfn fylgir flugvélinni, auk viðhalds- og tæknimanna. Jafnframt er Landhelgisgæslan með starfsmann í stjórnstöð Frontex í Róm en allar upplýsingar frá eftirlitsskipum og flugvélum fara þangað til úrvinnslu og ákvarðanatöku um aðgerðir.


 
Áhöfnin fyrir framan TF-SIF við brottför í morgun.
Frá vinstri: Henning Þór Aðalmundsson stýrimaður, Viggó M. Sigurðsson stýrimaður, Hólmar Logi Sigmundsson flugmaður, Friðrik Höskuldsson stýrimaður, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Bjarni Ágúst Sigurðsson flugverndarstjóri og Árni Freyr Sigurðsson flugvirki.

 
 TF-SIF rennur úr hlaði áleiðis til Sikileyjar.