Varðskipið Ægir fær skemmtilega heimsókn frá krökkum í þriðja bekk Lundarskóla á Akureyri

Varðskipið Ægir fékk skemmtilega heimsókn nú í vikunni er eldhressir krakkar úr þriðja bekk Lundarskóla á Akureyri kíktu um borð. Varðskipið, sem þá var á Akureyri var að hefja eftirlitsferð en nú er Ægir við eftirlits- og löggæslustörf undan norðvesturlandi.

Skipherrann, Halldór B. Nellett og áhöfn hans tók vel á móti krökkunum sem skoðuðu varðskipið og búnað þess. Að heimsókn lokinni stilltu krakkarnir sér upp til hópmyndatöku ásamt kennurum og fulltrúum úr áhöfn varðskipsins. 

Eftir fróðlega og skemmtilega heimsókn kvöddu krakkarnir með virktum og varðskipið hélt af stað í eftirlitsferð.

 
Stelpurnar í þriðja bekk Lundarskóla ásamt kennurum sínum og fulltrúum úr áhöfn Ægis, þeim Halldóri B. Nellett skipherra og stýrimönnunum Kolbeini Guðmundssyni og Eiríki Bragasyni.
 
Og hér eru svo strákarnir í hópnum ásamt kennurum og stýrimönnunum Kolbeini og Eíríki.
 
Varðskipið Ægir við bryggju á Akureyri, rétt áður en haldið var úr höfn.