Áhöfnin á varðskipinu Ægi tekur þátt í hreinsun í friðlandi Hornstranda
Áhöfnin á varðskipinu Ægi tók í gær þátt í afar skemmtilegu verkefni sem fólst í hreinsun í friðlandi Hornstranda. Varðskipið og léttbátar þess ferjuðu sjálfboðaliða í land á Hornströndum og fluttu svo gríðarlegt magn af rusli til baka til Ísafjarðar.
Að hreinsunarátakinu komu Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær, Landhelgisgæsla Íslands, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Borea Adventures, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Skeljungur, Gámaþjónusta Vestfjarða og Sæplast.
Ferðin gekk afar vel og var ánægjulegt að fleiri sjálfboðaliðar buðu sig fram en komust að, en yfir 60 manns tóku þátt í hreinsunarátakinu. Farþegabáturinn GUÐRÚN KRISTJÁNS, sem er í eigu Sjóferða, fór frá Ísafirði í Rekavík bak Látur með sjálfboðaliðana þar sem áhöfnin á varðskipinu Ægi ferjaði nokkra þeirra í land. Þá var haldið austur í í Hornvík með GUÐRÚNU KRISTJÁNS og sjálfboðaliðum dreift um Hornvíkina til að hefja hreinsunarstörf.
Unnið var allan daginn að hreinsun og flutningi á rusli í Hornvík sem sett var í saltpoka og flutt um borð í varðskipið Ægi á léttbátum varðskipsins. Síðla dags hélt GUÐRÚN KRISTJÁNS með sjálfboðaliðana úr Hornvík til Ísafjarðar en varðskipið hélt í Rekavík bak Látur þar sem unnið var um kvöldið við að koma pokum um borð í varðskipið. Að því loknu voru sjálfboðaliðarnir úr Rekavík ferjaðir um borð í Ægi. Hélt varðskipið svo til hafnar á Ísafirði og kom þangað hlaðið saltpokum fullum af rusli laust fyrir klukkan tvö í nótt.
Þegar verkefninu var lokið hafði safnast rusl í alls 46 saltpoka. Hver saltpoki er um 1 rúmmetri og því er hér um að ræða ótrúlegt magn af rusli sem hent hefur verið í sjó. Sem dæmi um rusl sem týnt var upp voru gamlar netadræsur, kaðalhankir, plast, plaströr, trollkúlur og færiband úr fiskvinnsluvél fiskiskips.
Á meðfylgjandi myndum sem áhöfnin á varðskipinu Ægi tók má sjá það magn af rusli sem flutt var með varðskipinu til hafnar á Ísafirði.
Ótrúlegt magn af rusli eða alls 46 saltpokar voru fluttir að hreinsunarstörfum loknum með varðskipinu Ægi til Ísafjarðar. |
Varðskipið Ægir siglir með pokana til Ísafjarðar.
|
Unnið að affermingu Ægis á Ísafirði. |
Farþegabáturinn GUÐRÚN KRISTJÁNS flytur sjálfboðaliða sem þátt tóku í hreinsunarátakinu. |