Varðskipið Týr komið heim eftir ríflega hálfs árs störf á Miðjarðarhafi þar sem áhöfnin hefur bjargað þúsundum flóttamanna

Varðskipið Týr kom heim í dag eftir ríflega hálfs árs veru á Miðjarðarhafi við landamæragæslu og björgunarstörf á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins. Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti áhöfninni við heimkomuna í dag.

Áhöfnin á Tý hefur frá því í desember unnið hvert þrekvirkið á fætur öðru og bjargað þúsundum flóttamanna. Hafa aðgerðir þessar verið erfiðar og tekið á en gengið ótrúlega vel. Þakkaði Georg öllum þeim áhafnarmeðlimum sem að verkefninu hafa komið frá upphafi fyrir unnin afrek. „Landhelgisgæslan getur svo sannarlega verið stolt af ykkur og verkum ykkar“ sagði Georg.

Það voru fagnaðarfundir á bryggjunni í dag er áhöfnin kom heim eftir langa fjarveru frá fjölskyldum sínum sem tóku fagnandi á móti þeim við heimkomuna.

 
 Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar heilsar skipherranum Einari H. Valssyni við heimkomuna.
 
Týr leggur upp að varðskipinu Þór. 

 
 Týr á heimsiglingu.