Yfirmaður bandarísku strandgæslunnar heimsækir Landhelgisgæsluna

Yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, aðmíráll Paul F. Zukunft heimsótti Landhelgisgæsluna í dag ásamt sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi Robert C. Barber og fylgdarliði. Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti gestunum ásamt fulltrúum Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan og bandaríska strandgæslan eiga í nánu og miklu samstarfi meðal annars á sviði leitar og björgunar, siglingastjórnunar, mengunareftirlits á hafinu sem og þjálfunar og menntunar starfsmanna. Heimsóknin í dag er liður í þessu góða samstarfi sem er afar mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna.

Farið var yfir helstu verkefni og meðal annars ræddir möguleikar á frekari þróun samstarfs vegna Norðurslóða. Þá var farið í flugdeild Landhelgisgæslunnar og um borð í varðskipið Þór og starfsemin þar kynnt. Auk þess var fylgst með æfingu þyrlu Landhelgisgæslunnar með Slysavarnarskóla sjómanna og skólastjóri skólans kynnti starfsemi hans og mikilvægt samstarf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar.

 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar býður yfirmann bandarísku strandgæslunnar og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi velkomna
 
 Fulltrúar Landhelgisgæslunnar kynna starfsemina fyrir gestunum

 
Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri og Höskuldur Ólafsson flugtæknistjóri bjóða aðmírál Paul F. Zukunft velkominn í flugdeild Landhelgisgæslunnar
 
 Þyrluflotinn skoðaður
 
Skipherrann á Þór, Sigurður Steinar Ketilsson tekur á móti gestunum um borð í Þór
 
 Skoðunarferð um varðskipið Þór

 
Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna kynnir starfsemi skólans fyrir aðmírálnum og það mikilvæga samstarf sem er milli Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar

 
Fylgst var með æfingu Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarskóla sjómanna sem er mikilvægur liður í öryggismálum sjómanna
 

Samstarfsfélagar skiptast á gjöfum                                                                                                                                   Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og aðmíráll Paul F. Zukunft


 
 Gestir og fulltrúar Landhelgisgæslunnar að lokinni vel heppnaðri heimsókn