Hressir krakkar af leikskólanum Sólborg heimsækja flugskýli Landhelgisgæslunnar

Það var eldhress hópur flottra krakka af leikskólanum Sólborg sem heimsótti flugskýli Landhelgisgæslunnar í morgun. Krakkarnir sem eru af elstu deild skólans, eru þessa dagana í margvíslegum vettvangsferðum og fræddust í morgun um þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar. Reyndar voru þessir fróðleiksfúsu krakkar alveg með það á hreinu hvað þyrlur Landhelgisgæslunnar gera. Vildu þau fá að vita hvort þyrlurnar gerðu eitthvað meira en bjarga fólki og hvort hægt væri að fljúga þyrlum sem væru með færri en tvo spaða. Sem sagt eldklárir krakkar sem eru greinilega tilbúnir í grunnskólagönguna. Fengu þau svör við margvíslegum spurningum sínum hjá stýrimönnunum og sigmönnunum Viggó M. Sigurðssyni og Gísla Val Arnarsyni sem tóku á móti hópnum.  

Að lokinni skoðunarferð um flugskýlið þar sem farið var um borð í þyrlurnar, gæddu krakkarnir sér á djúsi og kexi og fengu að lokum Landhelgisgæslublöðru og endurskinsmerki með mynd af varðskipinu Þór að gjöf.

Landhelgisgæslan þakkar þessum frábæru krökkum fyrir komuna.

 
Hópurinn mættur galvaskur í flugskýli Landhelgisgæslunnar ásamt kennurum sínum, tilbúinn að fræðast um starfsemina
 
Allir fengu að prófa að setjast í sætin í þyrlunni og að sjálfsögðu voru beltin spennt
 
 Þessir tveir alveg tilbúnir
 
Þessi kaggi vekur alltaf jafn mikla kátínu en hann er notaður til að draga þyrlurnar út úr flugskýlinu og prófuðu allir að flauta með háværri flautu þessa flotta sportbíls
 
 Bara gaman.... og allir bíða spenntir
 
Krakkarnir voru einstaklega duglegir að ganga í röð og voru alveg til fyrirmyndar
 
Nammi namm

 
 Aldeilis ánægð með djús og kex

 
Stillt og prúð öll sem eitt
 
Flottur hópur að lokinni skemmtilegri heimsókn með þeim Gísla Val Arnarsyni og Viggó M. Sigurðssyni stýrimönnum og sigmönnum