Til hamingju með daginn sjómenn

Í dag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðarhöldunum með ýmsum hætti. Athöfn fór fram í morgun við Minningaröldur sjómannadagsins við Fossvogskapellu í Fossvogskirkjugarði. Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti ritningarorð og bæn. Lagður var blómsveigur að minnisvarðanum og starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð ásamt skipverjum af danska varðskipinu Thetis.

Viðstaddir voru meðal annars forstjóri og starfsmenn Landhelgisgæslunnar, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, fulltrúar Sjómannadagsráðs og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar auk annarra sem koma að sjóbjörgunarmálum hér á landi og fleiri mætra gesta.

Að lokinni athöfn héldu gestir í safnaðarheimili Dómkirkjunnar þar sem safnast var saman til Sjómannamessu í Dómkirkjunni. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar og skipverjar af danska varðskipinu Thetis gengu í fylkingu ásamt forseta Íslands, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins, fulltrúum Sjómannadagsráðs, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og fleiri gestum til messunnar.

Sr. Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur predikaði og sr. Hjálmar Jónsson þjónaði fyrir altari. Dómkirkjukórinn söng, organisti var Kári Þormar og einsöngvari Gissur Páll Gissurarson. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar lásu ritningarorð og báru fána. Ritningarorðin lásu Eiríkur Bragason stýrimaður og Gunnar Rúnar Pálsson vélstjóri. Fánaberar voru þeir Jóhann Gunnar Arnarson bryti, Kolbeinn Guðmundsson stýrimaður og Sverrir G. Harðarson háseti.

Síðar um daginn voru skipsáhafnir Landhelgisgæslunnar heiðraðar af Sjómannafélagi Vestmannaeyja fyrir björgunarafrek áhafnanna á Miðjarðarhafi. Halldór B. Nellett skipherra veitti viðtöku áletruðu heiðursmerki fyrir þeirra hönd. 

Líkt og undanfarin ár lásu starfsmenn Landhelgisgæslunnar úr ritningunni í messu á Hrafnistu í Reykjavík, dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var á ferðinni og kom við á Eyrarbakka, í Grindavík og í Hafnarfirði. Áhöfnin sýndi björgun úr sjó, auk þess að sýna þyrluna og kynna starfsemina. Þá tók þyrluáhöfnin þátt í hátíðarhöldum í Reykjavík þar sem sýndar voru margvíslegar björgunaræfingar.

Landhelgisgæsla Íslands óskar sjómönnum og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

 

 
Skipverjar af danska varðskipinu Thetis tóku þátt í hátíðarhöldum dagsins og stóðu meðal annars heiðursvörð ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar við minningarathöfnina sem fram fór við Minningaröldur sjómannadagsins.
 
Heiðursvörðurinn tilbúinn. Fremstir fara starfsmenn Landhelgisgæslunnar og síðan skipverjar af Thetis.
 
Guðrún Hildur Einarsdóttir háseti á varðskipum Landhelgisgæslunnar og fulltrúi frá áhöfn danska varðskipsins báru blómsveig sem lagður var að Minningaröldum sjómannadagsins.
 
Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flytur minningarorð. Í baksýn er heiðursvörður Landhelgisgæslunnar.
 
Frá vinstri: Auðunn Friðrik Kristinsson verkefnastjóri á aðgerðasviði, Halldór B. Nellett skipherra, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra, Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Georg Kristinn Lárusson forstjóri og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis.
 
 Gestir tilbúnir að ganga fylktu liði til Sjómannamessu í Dómkirkjunni.

 
 Áhöfn Thetis og starfsmenn Landhelgisgæslunnar ganga úr kirkju að lokinni messu.
 
Halldór B. Nellett skipherra veitir viðtöku heiðursmerki frá Sjómannafélagi Vestmannaeyja til handa skipsáhöfnum Landhelgisgæslunnar fyrir björgunarafrek þeirra á Miðjarðarhafi.
 
 Þyrla Landhelgisgæslunnar til sýnis í Grindavík.